Við, sem erum félagsmenn í alþjóðlegri hreyfingu sem vinnur að framgangi alþjóðamálsins esperanto, beinum þessu ávarpi til ríkisstjórna, alþjóðasamtaka, félagasamtaka og allra velviljaðra manna, lýsum yfir staðfastri ætlun okkar að vinna áfram í þágu þeirra markmiða sem hér eru tilgreind og bjóðum þeim sem hér eru ávarpaðir til samvinnu í því starfi.

Árið 1887 birtist esperanto í frumgerð sem þróaðist hratt í kröftugt, blæbrigðaríkt tungumál. Í meira en öld hefur þetta mál, sem þegar í upphafi var ætlað að vera hjálparmál í alþjóðlegum samskiptum, gegnt hlutverki sem tengiliður manna yfir málleg og menningarleg landamæri. Upphaflegt markmið esperantos sem samþjóðlegs hjálparmáls hefur ekki misst mikilvægi sitt og raungildi í heimi nútímans. Notkun nokkura þjóðmála víðs vegarum heim, framfarir í samskiptatækni og nýjar aðferðir í málakennslu munu að líkindum ekki gera að veruleika eftirtalin meginatriði sem við teljum grundvöll réttlátrar og virkrar lausnar tungumálavandans.

1. Lýðræði Samskiptakerfi, sem veitir sumum ævilöng forréttindi en krefst þess af öðrum að þeir leggi á sig áralangt erfiði til að ná minniháttar færni, er í grundvallaratriðum andlýðræðislegt. Þótt esperanto sé ekki fullkomið fremur en nokkurt annað tungumál stendur það miklu framar sérhverjum keppinaut á sviði alþjóðlegra samskipta á jafnréttisgrundvelli.

Við fullyrðum að mállegt misrétti leiði af sér samskiptalegt misrétti á öllum stigum, þar á meðal alþjóðlegum. Við vinnum að framgangi lýðræðislegra samskipta.

2. Menntun yfir landamæri

Sérhvert þjóðmál er bundið ákveðinni menningu og þjóð(um). Nemandi, sem lærir ensku, lærir jafnframt um menningu, landafræði og stjórnmál enskumælandi þjóða, einkum Bandaríkjamanna og Breta. Nemandi, sem lærir esperanto, lærir um heiminn án markalína þar sem séhrvert land á sér heimili.

Við fullyrðum að mentun sem veitist á hvaða þjóðmáli sem er sé bundin tilteknu viðhorfi til heimsins. Við vinnum að menntun yfir landamæri.

3. Kennsluvirkni Aðeins lítill hundraðshluti þeirra, sem læra erlent tungumál, nær á því verulegu valdi. Fullt vald á esperanto næst jafnvel með sjálfsnámi. Rannsóknir hafa leitt í ljós gildisáhrif esperantonáms fyrir nám í öðrum málum og námsgreinum. Mælt hefur verið með esperanto sem kjarnanámi við þroskun á málvitund nemenda.

Við fullyrðum að erfiðleikar við nám þjóðmála muni ávallt reynast þröskuldur á vegi margra nemenda sem kunnátta í öðru máli kæmi samt að gagni. Við vinnum að virku málanámi.

4. Fjöltyngi Esperantohreyfingin er eitt af fáum málsamfélögum á heimsvísu þar sem hver og einn eru undantekningarlaust tvítyngdir eða fjöltyngdir. Sérhver félagi í esperantohreyfingunni hefur lært að minnsta kosti eitt annað mál og náð þar talhæfni. Í mörgum tilvikum hefur það leitt til þekkingar og áhuga á fleiri tungumálum og almennt til víðara sjónhrings.

Við fullyrðum að talendur allra tungumála, smárra sem stórra, ættu að hafa möguleika á að tileinka sér annað mál til fullnustu. Við vinnum að því að sá möguleiki verði raunverulegur.

5. Málréttindi Ójöfn valdskipting milli tungumála er ávísun á viðvarandi mállegt öryggisleysi eða beina málkúgun mikils hluta jarðarbúa. Innan esperantohreyfingarinnar mætast mælendur stórra og smárra tungumála á hlutleysisgrundvelli sem mótast af gagnkvæmu samkomulagi. Slíkt jafnvægi milli málréttinda og ábyrgðar gefur fordæmi til að þróa og meta aðrar lausnir á mállegu misrétti og átökum milli tungumála.

Við fullyrðum að hinn gífurlegi valdamunur milli tungumála grafi undan yfirlýsingum fjölda alþjóðlegra samþykkta um tryggingu þess að umfjöllun mála skuli vera á jafnréttisgrundvelli án tillits til tungumála. Við vinnum að málréttindum.

6. Fjölbreytni tungumála Stjórnvöld hinna ýmsu þjóða hneigjast til að líta á hina miklu fjölbreytni tungumála heimsins sem hindrun á vegi samskipta og þróunar. Esperantohreyfingin lítur þannig á sú fjölbreytni sé stöðug og ómissandi uppspretta auðlegðar. Af því leiðir að sérhvert tungumál jafnt sem sérhvert líf hafi gildi í sjálfu sér og eigi því rétt á stuðningi og vernd.

Við fullyrðum að ef pólitísk afskipti af samskiptum og þróun er ekki byggð á virðingu og stuðningi við öll tungumál, leiði þau til útrýmingar meirihluta tungumála heimsins. Við vinnum að því að tryggja fjölbreytni tungumála.

7. Frelsi mannsins Sérhvert tungumál veitir í senn mælendum sínum frelsi og leggur á þá fjötra, gefur þeim möguleika á samskiptum sín á milli og hindrar samskipti þeirra við aðra. Esperanto er ætlað til samþjóðlegra samskipta og er mikilvæg leið til að auka mannlegt frelsi -- leið til að gera sérhverjum manni fært að taka þátt í samfélagi mannkynsins sem einstaklingur sem hefur traustar rætur í eigin menningu og þeirri samvitund sem fylgir eigin tungumáli án þess að það setji honum skorður.

Við fullyrðum að samskipti sem einskorðast við notkun þjóðmála takmarki óhjákvæmilega frelsi manna til tjáningar, samskipta og fjölþjóðlegra tengsla. Við vinnum að frelsi mannsins.